Tvær hálflínur með sama upphafspunkt mynda horn. Upphafspunktur hálflínanna kallast þá oddpunktur hornsins og hálflínurnar kallast armar þess. Á myndinni sést horn með oddpunkt $O$ og arma $h$ og $k$.
Þegar armar horns liggja ekki á sömu línu, þá er sagt að hornið sé eiginlegt horn. Ef hinsvegar armar horns eru gagnstæðar hálflínur, þá er sagt að hornið sé beint; en ef armar horns eru sama hálflínan, þá er sagt að hornið sé núllhorn.
Punktur sem ekki liggur á örmum eiginlegs horns er innaní horninu ef hann liggur á striki með endapunka á örmum þess, en utanvið hornið annars.
Horn kallast rétt horn ef armar þess eru þverstæðir. Öll rétt horn eru jafn stór og gráðumál þeirra er $90^\circ$. Rétt horn er yfirleitt auðkennt á mynd með því að setja ferning við oddpunkt þess.
Látum $l$ og $m$ vera tvær ólíkar línur og $n$ vera þriðju línuna sem sker hinar tvær í tveimur ólíkum punktum. Látum $O$ vera skurðpunkt $n$ við $l$ og $P$ vera skurðpunkt $n$ við $m$.
Þá myndast átta eiginleg horn sem hafa annan arm sinn á línunni $n$ og hinn arm sinn á línunum $l$ eða $m$. Þessi horn hafa oddpunkt $O$ eða $P$.
Gagnstæðar hálflínur við armahorns mynda nýtt horn. Nýja hornið er mótlægt horn upphaflega hornsins og sagt er að þessi tvö horn séu gagnstæð horn. Gagnstæð horn eru alltaf jafn stór.