Bókaverðlaun Íslenska stærðfræðafélagsins
Frá árinu 1952 hefur Íslenska stærðfræðafélagið veitt nýstúdentum bókaverðlaun fyrir framúrskarandi árangur í stærðfræði á stúdentsprófi. Framan af var miðað við að nemendur í eðlisfræðideild sem höfðu náð ágæstiseinkunn á öllum stærðfræðiprófum hlytu verðlaunin.
Árið 1989 ákvað stjórn félagsins að reyna að grafa upp nöfn allra þeirra sem fengið höfðu verðlaunin frá upphafi, og þeir birtu niðurstöðurnar í fréttablaði félagsins (2. tbl, 1.árg.). Þar lýsa þeir vinnu sinni svo:
Félagið hefur gefið bókaverðlaun allt frá árinu 1952. Því miður hafa sumir ritarar félagsins gegnum tíðina ekki hirt um að skrá niður nöfn verðlaunahafanna. Nöfnin voru skráð samviskusamlega fyrstu árin en áratuginn 1961--1970 var ekkert skráð og upp frá því með nokkrum gloppum. Stjórnin ákvað að reyna að grafa upp nöfn allra þeirra sem fengið hafa verðlaunin frá upphafi. Fyrst leituðum við skýrslur skólanna uppi og gátum fundið nokkur nöfn í þeim. Síðan var haft sambandvið alla framhaldsskólana og þeir beðnir um að senda okkur nöfn verðlaunahafanna. Í sumum tilfellum voru engin nöfn skráð hjá skólunum og þá var ekkert annað að gera en að fara í einkunnabækurnar og athuga hverjir það voru sem uppfylltu skilyrðin sem áður voru nefnd. Á þessu sést að hugsanlegt getur verið að við höfum skráð hjá okkur nöfn manna sem aldrei hafa fengið verðlaunin og jafnframt að nöfn hafi fallið niður.
Þær upplýsingar sem hér er að finna byggja á vinnu stjórnarinnar árið 1989 og eins og þeir lýsa, þá eru þær ekki óyggjandi, heldur eftir því sem næst hefur verið komist. Síðan þá hefur aftur orðið misbrestur á því sum árin að nöfn verðlaunahafa séu skráð í bækur félagsins. Sú vinna bíður því einhvers að reyna að bæta þar úr.
Allir þeir sem sjá einhverjar villur í listunum yfir verðlaunahafana eru vinsamlega beðnir um að hafa samband við stjórn félagsins.