Skip to Content

Punktur $A$ á tiltekinni línu skiptir línunni í tvær hálflínur. Tveir punktar tilheyra sömu hálflínu ef þeir liggja sömum megin við punktinn $A$. Punkturinn $A$ tilheyrir báðum hálflínunum og kallast upphafspunktur þeirra. Hálflínurnar tvær eru sagðar vera gagnstæðar og hvor þeirra er mótlæg hinni.

Dæmi:   Á myndinni skiptir punkturinn $A$ línu í tvær gagnstæðar hálflínur með upphafspunkt $A$. Önnur hálflínan er blá en mótlæg hálflína þeirrar bláu er rauð.

Látum $A$ og $B$ vera tvo ólíka punkta. Punkturinn $A$ skiptir línunni í gegnum $A$ og $B$ í tvær hálflínur. Þá hálflínu sem $B$ liggur á má tákna með $\left.AB\right>$.

Sömu hálflínuna má tákna með þessum hætti á marga vegu. Ef $C$ er punktur á hálflínunni $\left.AB\right>$, annar en upphafspunkturinn, þá eru $\left.AC\right>$ og $\left.AB\right>$ sama hálflínan.